Einfaldleikinn
Einfaldleikinn er ekki spennandi. Allavega ekki í skáldskap og í afþreyingu. Því flóknari sem fléttan er því betra.. Einnig er mjög vinsælt að hafa óvæntar vendingar og óútreiknanlegar persónur sem eru allt í einu óheiðarlegar og óskiljanlegar þegar við erum farin að halda að við þekkjum þær af góðu einu.
Ég á dálítið erfitt með þetta.. Ég vil nefnilega trúa á það góða og hætti til dæmis að horfa á þætti ef einhver sem ég hef haldið með gerir eitthvað slæmt eða jafnvel illmannlegt. Byrja svo aftur þegar ég hef jafnað mig en þetta hefur skrítin áhrif á mig. Svo þegar ég skrifa eitthvað hef ég tilhneigingu til að koma mér beint að efninu og á til að vera jafnvel of einföld í framsetningu á ýmsu. Og vil segja frá þannig að engin vafi verði á að fólk skilji hvað ég er að meina og ofskýri þá oft hlutina. Mér hefur verið bent á í svona ferli að „less is more“.. Það er að segja minna er meira. Kannski vil ég hafa lífið dáldið klippt og skorið. Það má alveg vera spennandi en þá á jákvæðan hátt. Öll óvissa sem ég les ekki sem jákvæða er mér erfið.
En undir niðri þrá líka flestir einfaldleikann, að allt sé einfalt og gott. Við þráum frið og einkanlega innri frið.
„Hvort er betra að vera ánægt svín eða óánægður Sókrates.“
Þetta var titillinn á ritgerð sem við áttum að skrifa í menntaskóla. Ég man svo vel eftir þessari ritgerð því hún fékk mig til að hugsa. Svo man ég að ég fékk ekki alveg eins góða einkunn og ég hafði fengið fyrir ritgerðirnar mínar. Ég vissi að það var ekki af því að ritgerðin var verri en þær fyrri heldur af því að kennarinn var ekki sammála efnistökunum.
Ég kaus nefnilega að skrifa um það að betra væri að vera ánægt svín og þar vildi ég meina að þegar fólk gleymdi sér í hugsunum og akademískum pælingum dveldi það i huganum sem er aldrei ánægður. En svínið dvelur auðvitað mest í núinu. Manneskja sem í þessu tilviki er talað um sem svínið er manneskjan sem er ánægð með að fá mat og drykk og geta velt sér upp úr drullunni þegar því langar til. Er ekkert að hugsa of mikið um hlutina en njóta þeim mun meira.
Hugurinn getur orðið óvinur manns og er það mjög oft. Það er ástæða fyrir því að meira er um kvíða, þunglyndi, alkóhólisma og allskonar andleg veikindi í nútímanum.
Ég myndi kalla þau hugræn veikindi því það sem vantar er andinn en það sem er of mikið af eru hugsanir.
Ég held að ástæðan fyrir því að við dveljum meir í huganum í dag en oft áður séu allar þær græjur, tækni og upplýsingaflæði sem skellur á okkur dag eftir dag, ár eftir ár. Mjög margir hafa þróað með sér eins konar athyglisbrest. Þar á meðal ég.
En áfram með svínið og einfaldleikann. Ég hef alltaf átt erfitt með þegar fólk byrjar að flækja það sem ég lít á sem einfalt mál. Ástæðan fyrir því að ég hætti í bókmenntafræðinni á sínum tíma var að þar var verið að rýna í bækur og túlka einhvernveginn sem ekki einu sinni sá sem skrifaði bækurnar var sammála um eða var alls ekki það sem hann ætlaði að segja.
Mér fannst allt í einu að það væri búið að finna upp grein þar sem verið var að búa til skýringar á því sem hver og einn ætti að finna út fyrir sjálfan sig. Nú er ég kannski ekki alveg á sömu skoðun en samt er það þessi tilfinning um að verið sé að flækja einfalda hluti mjög sterk hjá mér.
Ástæðan fyrir því að ég fór að skrifa þennan pistil var að mín lífssýn er mjög einföld. Það er ljós og það er myrkur, Við erum öll að stefna í ljósið en á mismunandi hraða og á mismunandi hátt. Mér finnst ég ekki þurfa ákveðna trú eða aðferð. Þarf engar gyðjur eða guði, möntrur, meðöl eða trúarathafnir. Allt þetta getur hjálpað til svo að fólk geti sleppt hugsunum sínum og losað við það sem er fast í tilfinninga líkamanum.
Þegar ég hugleiði sleppi ég öllum hugsunum og hugmyndum um lífið og sjálfa mig. Ljósið streymir inn og ég finn að ég er hluti af alheimsorku sem er aðeins ljós og kærleikur. Það sem stendur í veginum svona í daglegu lífi er egóið, hugsanir og tilfinningar sem eru einmitt stundum fastar í líkamanum. Ég held að annars værum við ansi mörg orðin uppljómuð.
En svona í lokin þá er gott eins að gæta hugsanna sinna eins og Jónas Sigurðsson syngur um. Það er strax betra ef maður gerir það.
En hugsanir eru oft eitthvað sem við grípum úr umhverfi og uppeldi svo það er vissara að trúa hugsunum sínum. Trúa hjartanu frekar. Og muna að ég er ekki það sem ég hugsa. Ég og við öll erum eitthvað miklu meira og stórkostlegra en við getum hugsað okkur.